Brot af því besta í gegnum árin

7. desember 2020

Nýr vefur Voces Masculorum

Þrátt fyrir Covid ástandið er kórinn í fullu fjöri og hefur nú uppfært vefinn sinn þar sem finna má ýmsar hagnýtar upplýsingar.

8. febrúar 2020

Afmælistónleikar Voces Masculorum

Karlakórinn Voces Masculorum er að eigin sögn langbesti og hógværasti karlakór landsins. Hann hefur um árabil aðallega sungið í jarðaförum en af tilefni 20 ára afmæli kórsins efnir hann til afmælistónleika svo að sem flestir landsmenn geti notið hans fagra, blíða og kraftmikla söngs.

 

Á efnisskránni verða lögin við vinnuna (útfararsálmar) en einnig önnur hefðbundin karlakórsviðfangsefni, bæði innlend og erlend. 

Stjórnandi er Egill Gunnarsson og píanóleikari Tómas Guðni Eggertsson.


20. nóvember 2013

Heimildarmyndin Dauðans alvara

Á morgun verður frumsýnd heimildarmyndin Dauðans alvara sem fjallar um útfararþjónustu og þá starfsemi sem í henni er fólgin. Sagt er frá því ferli sem á sér stað frá andláti til grafar á skýran og áhugaverðan hátt og svarar myndin mörgum spurningum sem fólk kann að hafa um þetta viðkvæma ferli. Fylgst er með Rúnari Geirmundssyni og sonum hans að störfum hjá Útfararþjónustunni í Reykjavík í eina viku.

Voces Masculorum kemur fram í nokkrum atriðum í myndinni.


20. ágúst 2012

Voces Masculorum ásamt Gissuri, Ágústi og Evu Þyrí í Salnum

Laugardaginn kemur, 25. ágúst, munu Voces Masculorum taka þátt í skemmtilegum óperutónleikum ásamt stórsöngvurunum Gissuri Páli Gissurarsyni og Ágústi Ólafssyni. Þeir, ásamt Evu Þyri Hilmarsdóttur píanóleikara, flytja marga vinsælustu dúetta óperubókmenntanna fyrir tenór og baritón. Sungið verður um ástir, afbrýðissemi, bræðralag, baráttu og hetjudáðir.

Kórinn mun syngja m.a. Prestakórinn úr Töfraflautunni, lítið eitt úr Don Carlo og La vergine úr Valdi örlaganna með Helgu Rós Indriðadóttur, en hún verður gestur á tónleikunum.


1. júní 2012

Gissur Páll tilnefndur til Grímunnar 2012

Einn úr okkar röðum, Gissur Páll Gissurarson tenór hefur verið tilnefndur til Grímuverðlauna sem besti söngvari ársins 2012 fyrir hlutverk sitt í óperunni La bohème í sviðssetningu Íslensku óperunnar.

Við óskum Gissuri til hamingju með tilnefninguna og óskum honum góðs gengis.

Þess má geta að margir félagar úr Voces Masculorum sungu í kórnum í La bohème og má segja að meginhluti karlsöngvara á sviðinu hafi verið úr okkar röðum.


28. nóvember 2011

Fyrsta hljómplata Voces Masculorum komin út

Karlakórinn Voces Masculorum hefur nú loksins sent frá sér hljómplötu, en hennar hefur verið beðið með óþreyju.

Þessi fyrsta plata kórins er nokkurskonar þversnið af því sem helst hefur verið á efnisskránni undanfarin ár og bera þar hæst hefðbundin karlakóralög, óperukórar og trúarleg tónlist, en megin starfsvettvangur kórsins hefur verið útfarasöngur og tækifærissöngur af ýmsu tagi.

Voces Masculorum er karlakór sem skipaður er einvalaliði söngvara. Kórinn fæst fyrst og fremst við að útfararsöng en hefur komið fram við ýmis tilefni á undanförnum árum, bæði einn og sjálfur og í samstarfi við marga helstu söngvara þjoðarinnar, haldið tónleika og komið fram í fjölmiðlum.

Á diskinum eru eftirfarandi lög:

  • Brennið þið, vitar!
  • Ísland ögrum skorið
  • Ár vas alda
  • Vertu sæl mey
  • Liljan
  • Ísland er land þitt
  • Vöggukvæði (Litfríð og ljóshærð)
  • Maríuvers
  • Drottinn er minn hirðir
  • Ég byrja reisu mín
  • Í bljúgri bæn
  • Nú legg ég augun aftur/Ég fel í forsjá þína
  • Lýs, milda ljós
  • Nú máttu hægt um heiminn líða
  • Prestakórinn úr óperunni Töfraflautan
  • Pílagrímakórinn úr óperunni Tannhäuser

Mörg laganna eru í nýjum útsetningum eftir Skarphéðinn Þór Hjartarson og eitt nýtt og áður óútgefið lag er á plötunni, en það er Maríuvers eftir Egil Gunnarsson. Egill og Skarphéðinn eru báðir meðal kórmanna.


21. júní 2011

Félagar úr Voces Masculorum syngja í sumartónleikaröð CCCR í Hörpu

Átta félagar úr Voces Masculorum taka þátt í sumartónleikaröð CCCR í Hörpu í sumar.

Þetta er annað sumarið sem CCCR stendur fyrir sumartónleikaröð, en tónleikarnir í röðinni eru fyrst og fremst ætlaðir erlendum ferðamönnum til kynningar á íslenskri tónlist. Félagarnir úr Voces Masculorum skiptast á um að syngja saman í kvartettum og eru fyrirhugaðir a.m.k. 10 tónleikar í sumar. Sú nýbreyti er í tónleikaröðinni í sumar að allir tónleikarnir verða haldnir í salnum Kaldalóni í Hörpu.

Félagarnir sem taka þátt í tónleikaröðinni eru tenórarnir Hlöðver Sigurðsson, Skarphéðinn Þór Hjartarson, Pétur Húni Björnsson og Örn Arnarson; og bassarnir Egill Gunnarsson, Jóhann Baldvinsson, Bragi Jónsson og Hjálmar P. Pétursson.


21. október 2010

10 félagar úr Voces Masculorum í Rigoletto

Íslenska óperan sýnir um þessar mundir Rigoletto eftir Verdi. Í þessari óperu er 15 manna karlakór og rúmur helmingur af söngmönnum koma úr röðum Voces Masculorum eða átta karlar. Þrír þeirra eru auk þess með smá hlutverk, þeir Hlöðver Sigurðsson, Bragi Jónsson og Skarphéðinn Þór Hjartarson. Einn af einsöngvurunum kemur líka úr röðum VM en það er Jóhann Friðgeir Valdimarsson sem syngur hlutverk hertogans af Mantúa. Gissur Páll Gissurarson sér um kynningu á söguþræði óperunnar á undan sýningum en hann er einnig félagi í Voces Masculorum.

Það má því segja að Voces Masculorum leiki stórt hlutverk á fjölum Íslensku óperunnar um þessar mundir.


1. maí 2010

Sígild íslensk tónlist á hverju kvöldi

Í sumar tekur Voces Masculorum þátt í frábæru framtaki Bjarna Thors óperusöngvara þar sem hann stendur fyrir tónleikaröð þar sem íslensk tónlist verður í öndvegi. Fluttar verða perlur íslenskra sönglaga, sungin raddsett þjóðlög og sálmar og margt fleira. Dagskráin er hugsuð fyrir ferðamenn en ætti að höfða til allra þeirra sem áhuga hafa á sígildri íslenskri tónlist.


1. nóvember 2009

Stórtónleikar í Grafarvogskirkju

Stórtónleikar Lionsklúbbsins Fjörgyn verða haldnir í Grafarvogskirkju 12. nóvember næstkomandi. Tónleikarnir eru haldnir til styrktar Barna- og unglingageðdeild LSH og líknarsjóði Fjörgyn.

Að sjálfsögðu láta strákarnir í  Voces Masculorum ekki sitt eftir liggja og mæta líkt og þeir hafa gert síðustu ár.


20. október 2009

Tónlistardagskrá í Fossvogskirkju á Allra heilagra messu

Sunnudaginn 1. nóvember 2009 verður boðið verður til tónlistardagskrár við kertaljós í Fossvogskirkju á degi syrgjenda, Allra heilagra messu, eins og undanfarin ár. Dagskráin hefst kl. 14. Meðal þeirra sem koma fram eru Voces Masculorum, Ólöf Arnalds, Óskar og Ómar Guðjónssynir og Sólrún Samúelsdóttir. Stuttar hugvekjur verða fluttar á milli tónlistaratriða.


15. október 2009

Messa í Vídalínskirkju

Félagar úr karlakórnum Voces Masculorum syngja við messu í Vídalínskirkju sunnudaginn 18. október kl. 11.


10. október 2009

Voces Masculorum á Austurlandi

Þann 9. september sl. hélt Voces Masculorum tónleika í Tíbrár röðinni í Salnum í Kópavogi við frábærar undirtektir. Hróður kórsins barst austur yfir heiðar og voru austfirðingar mjög áhugasamir að fá kórinn austur á firði til að halda tónleika. Þeim verður að ósk sinni því laugardaginn 3. okt. nk. heldur Voces Masculorum tónleika á Eskifirði kl. 17. Þeir sem misstu af tónleikunum í Salnum fá því tækifæri til að heyra í þessum landsfræga kór.


21. ágúst 2009

Voces Masculorum á Tíbrártónleikum

Miðvikudaginn 9. september n.k. heldur Voces Masculorum tónleika í Salnum í Kópavogi. Á tónleikunum verða flutt lög eftir m.a. Sigfús Halldórsson, Inga T. Lárusson, Egil Gunnarsson, Mozart, Wagner, Bítlana, Mel Brooks og Britney Spears.

18 söngmenn munu syngja á tónleikunum  en stjórnandi og píanóleikari er Kári Þormar.

Tónleikarnir hefjast kl. 20:00. Miðaverð er 2.500kr. Hægt er að panta miða á heimasíðu Salarins www.salurinn.is eða í síma 5-700-400.


21. mars 2009

Öll þjóðin – eitt hjarta

Í tilefni 25 ára afmælis Hjartaheilla hafa samtökin nú ákveðið að blása til sóknar og efna til landssöfnunar undir yfirskriftinni Öll þjóðin – eitt hjarta. Merkjasala fer fram þessa dagana og eru landsmenn beðnir að taka vel á móti sölufólki Hjartaheilla. Ríflega tveggja klukkustunda löng söfnunar- og skemmtidagskrá verður í beinni útsendingu og opinni dagskrá á Stöð 2 laugardaginn 28. mars.


16. febrúar 2009

Íslensku tónlistarverðlaunin 2008

Voces Masculorum verður þess heiður aðnjótandi að sjá um söngatriðin við afhendingu íslensku tónlistarverðlaunanna 18. febrúar n.k. Verðlaunin verða veitt í beinni útsendingu í sal Ríkisútvarpsins. Ekki missa af þessu.


9. desember 2008

Tónleikarnir með Björgvini Halldórssyni tókust vel

Tónleikarnir með Björgvini tókustu vonum framar og í gagnrýni Hönnu Eiríksdóttur segir m.a:

“Barnakór Kársnessskóla og Karlakórinn Voces Masculorum settu sterkan svip á kvöldið. Krakkarnir í Kárnesskóla skemmtu sér svo vel að maður gat ekki annað gert en brosað. Og ekki var karlakórinn síðri.

Kórarnir tveir settu vissan heimilisbrag á tónleikana er þau dönsuðu í takt við lögin. Það fór ekki framhjá neinum hvað þau skemmtu sér vel.”


21. nóvember 2008

Tónleikar með Björgvini Halldórssyni

Laugardaginn 6. desember n.k. Stendur Björgvin Halldórsson fyrir tónleikum í Laugardalshöll. Tónleikarnir verða kl. 20:00 og aukatónleikar kl. 16:00. Fjöldi tónlistamanna munu koma fram á þessum tónleikum og er Voces Masculorum einn af þeim.

Sérstakur gestur verður Kristján Jóhannsson, óperusöngvari.


10. nóvember 2008

Styrktartónleikar BUGL

Voces Masculorum mun koma fram á árlegum styrktartónleikum BUGL í Grafarvogskirkju 13. nóvember nk. Það er Lionsklúbburinn Fjörgyn sem stendur fyrir þessum tónleikum, en þeir hafa verið haldnir á hverju ári síðan árið 2003.


21. júlí 2008

Menningarhátið á Bifröst

Háskólinn í Bifröst bauð til fjölskylduhátíðar föstudaginn 18. júlí 2008. Tilefnið var að nú stendur yfir afmælisár í Bifröst, 90 ár liðin nú í haust síðan Samvinnuskólinn var settur í fyrsta sinn.

Af því tilefni frumflutti Voces Masculorum Bifrastarlag eftir Jóhann G. Jóhannsson við texta Jónasar Friðriks.  Stjórnandi var Jónas Þórir. 

Sjá nánar hér.

Scroll Up